Aventura notar fótspor og aðra mælingatækni til að bæta upplifun þína á vefsíðu okkar, tryggja þér sem besta þjónustu og upplifun. Með því að halda áfram samþykkir þú notkun okkar á fótsporum.
Berlín

BERLÍN

Berlín er nútímaleg og alþýðleg stórborg en virkilega notaleg borg í hjarta Evrópu.

Berlín vinnur hug og hjörtu gesta nánast um leið og þeir stíga út úr lestinni eða yfirgefa flugvöllinn. Þetta er gestrisin og snyrtileg borg sem tekur vel á móti þér. Þig langar ekki til að yfirgefa hana og þegar þú gerir það langar þig strax þangað aftur.

Berlín er borg mikillar sorgarsögu og því með mikið aðdráttarafl. Hin ríka menningararfleifð Berlínar finnst í mörgum sögulegum minnisvörðum og söfnum. Líklega er útilokað að skilja eða skynja Berlín til fulls í einni heimsókn. Þú þarft að koma þangað að minnsta kosti tvisvar á ólíkum árstíðum. Sumarfrí í Berlín eru full af skemmtilegum uppákomum, þú getur notið dásamlega fallegu garðanna, blómabreiðanna, tjarnanna, vatnanna eða setið úti á notalegu sumarkaffihúsi. Á veturna er borgin stórkostleg með háværum jólamarkaði og litríkum görðum. Þú getur verið viss um að ferð til Berlínar skilur eftir sig ógleymanlegar minningar fyrir bæði yngri og eldri ferðamenn.


Hvað skal bralla í Berlín?


Í Berlín eru fjölmargir staðir sem er nauðsynlegt að heimsækja þar sem borgin hefur langa og merka sögu. Þrátt fyrir tvær hræðilegar heimsstyrjaldir hefur borgin varðveitt marga sögulega staði. Berlín er eins og opin sögubók – þú finnur alls staðar tengingar við söguna. Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að þú átt ekki að láta undir höfuð leggjast að skoða framvindu sögunnar og atburða til að öðlast betri skilning á borginni.

Mitte er skilgreint sem hjarta borgarinnar – þar eru langflestar byggingar sem hafa sögulegt gildi. Uppbygging Berlínar hófst á þessu svæði á tólftu öld. Þetta er svæðið þar sem Brandenburgarhliðið, þinghúsið og önnur stærstu kennileiti Berlínar eru staðsett. Besta leiðin til að kynnast Mitte-svæðinu er að ganga um það eða fara um á hjóli. Þrátt fyrir frekar mikla umferð í borginni eru margir hjólastígar, stæði fyrir hjól og hjólaleigur.

Brandenburgarhliðið er eitt þekktasta kennileiti Berlínar en það lagði grunninn að klassískum stíl borgarinnar. Það er staðsett í hjarta höfuðborgar Þýskalands og tengist hinu sögufræga Linden-stræti sem tengist síðan við hina fornu konungshöll. Þetta er einnig ein af hæstu byggingunum á Parísartorginu og er yfir 25 metra hátt.

Þú getur séð útsýnið frá höll þinghússins án þess að greiða fyrir það, þarft einungis að skrá þig á staðnum eða í sýningartjöldum í nágrenninu. Glæsilegt útsýni yfir alla Berlín opnast fyrir þér frá höllinni og þú getur fengið leiðsögn í gegnum heyrnartól um alla þekkta og sögufræga staði. Þú getur fræðst um sögu Berlínarmúrsins á Bernauer-stræti sem nú samanstendur af söfnum og leifum múrsins. Á safninu eru myndir, persónulegar sögur af fólki sem lifði af, sjónarvottum atburða. Aðgangur er ókeypis, það er innritunarborð á efstu hæð. Múrinn er óaðskiljanlegur hluti af sögu Berlínar. Ljóst er að heimsókn á safnið mun ekki leiða af sér unaðstilfinningar heldur þvert á móti mun hún henda þér á kaf í andrúmsloft þessara
hræðilegu atburða.


Næturlífið


Upplifun þín af Berlín verður ekki fullkomnuð nema þú skellir þér á næturlífið. Höfuðborg Þýskalands er með réttu talin miðja evrópsks klúbbalífs, sérstaklega raftónlistar. Hið einstaka andrúmsloft af gleði og skemmtunum lifir fram á morgun í Berlín. Frægir plötusnúðar, tónlistarmenn og danshópar koma frá öllum heimshornum allt árið um kring til að skemmta gestum.

Það eru 200 klúbbar í borginni. Aðgangseyrir er hóflegur og drykkir ódýrir. Samanborið við aðrar borgir í Evrópu þá er verðið lægra og það kostar frá fjórum til tíu evrur inn á klúbbana. Flestir klúbbarnir eru í austurhluta borgarinnar. Mjög margir vinsælir klúbbar eru á Charlottenburger-svæðinu og á Potsdamer-torginu. Það sem gerir það svo þægilegt að vera ferðamaður í Berlín er að það er hægt að ferðast með lest allan sólarhringinn.

Klúbbpartí eru haldin á fimmtudags-, föstudags og laugardagskvöldum. Sumir klúbbar eru opnir alla daga vikunnar. Partíin í Berlín hefjast um miðnætti og standa til klukkan tvö eða þrjú á nóttunni og eitthvað lengur á raf-/teknóklúbbum. Úthaldsmesta fólkið getur sótt klúbba sem eru með samfellda skemmtun frá laugardegi til mánudagskvölds. Frábær tónlist og nýtt fólk til að kynnast bíður þín alls staðar því er ekki mögulegt að láta sér leiðast eitt einasta kvöld. Í Berlín er meira að segja til það sem kallað er „Kreuzberg-nótt“ – lengsta nótt ársins. Hún getur átt sér stað í hverri viku – þú þarft bara að fara í partí á föstudegi og fara heim á mánudagsmorgni!


Verslun


Berlín getur tæplega kallast mekka þeirra sem elska að fara í búðir öfugt við Mílanó, París og London. En á undanförnum árum hefur Berlín laðað að sér fleiri og fleiri ferðamenn sem koma ekki sérstaklega til að skoða söfn eða stunda næturlífið heldur til að versla. Berlín er ein af stærstu borgum Evrópu. Svo það þarf ekki að koma á óvart að borgin sé full af freistingum fyrir þá sem eru með kaupæði. Þeim er boðið upp á allt frá stórum nýtískulegum verslunarmiðstöðvum og lúxusbúðum sem selja merkjavöru til flóamarkaða og lítilla búða sem selja minjavörur.

Kurfürstendamm er stærsta breiðgatan í Berlín og er hún vinsælasta verslunargatan. Þar standa reisulegar og glæsilegar byggingar frá því í byrjun aldarinnar sem í eru verslanir sem bjóða upp á dýra merkjavöru. Annars staðar getur þú keypt ýmsa minjagripi, t.d. á flóamarkaðinum í Tiergarten. Aðdáendur antikvara fá svo sannarlega eitthvað fyrir sinn snúð á markaðnum sem er einn sá stærsti í Evrópu.

Ef það stendur til að versla í Berlín þarf að hafa það í huga að þar eru verslanir lokaðar á sunnudögum, m.a.s. matvörubúðir. Aðra daga eru flestar búðir opnar frá kl. tíu á morgnana til átta á kvöldin, sumar eru opnaðar einni klukkustund fyrr á morgnana. Á aðventunni eru verslunarmiðstöðvar opnar til kl. tíu á kvöldin.

Sumarútsölurnar hefjast síðasta mánudag í júlí og vetrarútsölurnar síðasta mánudag janúarmánaðar. Útsölurnar standa í tvær vikur. Hafið í huga að ef þið stefnið á ferð til Berlínar á öðrum tíma þá eru afslættir og útsölur ekki einskorðaðar við þessar vikur. Sýnið skiltunum í verslunargluggunum athygli: „Reduziert“, hið hefðbundna „%“ og „Sale“.
Ys og þys í Berlín


Það er hægt að villast í Tiergarten sem er risastór garður í Berlín. Það er ekki alvanalegt að sjá feykistóran skóg í miðri borg. Gömlum veiðilendum hefur verið breytt í garð og áður en þú veist af er dagurinn liðinn hjá. Þar er tilvalið að skokka, hjóla, leigja sér bát eða bara liggja í grasinu og láta sig dreyma – fullkomið skipulag fyrir helgi í Berlín. Á rölti þínu eftir stígum Tiergarten verða á vegi þínum alls kyns skúlptúrar og ef heppnin verður með þér sérðu kanínur skjótast hjá. Á móti Brandenborgarhliðinu er bílastæðahúsið fyrir dýragarðinn en hann er sá elsti í heimi.

Farðu í sjónvarpsturninn. Hann er afar gott kennileiti og sýnilegur nánast alls staðar í borginni. Hann er 368 m hár og því hæsta bygging Þýskalands. Ferðamönnum stendur til boða að skoða borgina úr 204 m hæð og þar inni er bar og veitingastaður sem snýst.

Prófaðu hefðbundna þýska matargerðarlist. Það er lífsins ómögulegt að vera svangur í Berlín - kjötætur verða sérstaklega ánægðar! Mikil hefð er fyrir kjötréttum. Eisbein(svínaskanki soðinn í bjór), Berlin chop (djúpsteikt rifjasteik), Eintopf (þykk súpa með reyktu kjöti), grillaðar pylsur með súrkrás og brúnuðu káli með karríi - allt þetta má panta á nánast hvaða veitingastað sem er.


Staðreyndir um Berlín


1. Berlín er komin fram úr vatnaborginni Feneyjum þegar litið er til brúa yfir vötn og ár. Ef þú myndir spyrja einhverja ferðamenn í hvaða evrópskri borg væru flestar brýr myndu flestir eflaust nefna Feneyjar. Það er bara ekki rétt. Það eru fleiri en 1700 brýr í Berlín, margar þeirra bera byggingarlist Berlínar gott vitni. Brýrnar þykja allrabestu stefnumótastaðirnir. Þá er bara að drífa sig til Berlínar!

2. Það eru fleiri söfn í Berlín en rigningardagar. Heimamenn með góða kímnigáfu halda þessari skemmtilegu samlíkingu á lofti. Það eru 180 söfn af ýmsum tegundum og gerðum í borginni. Þannig að ef þig allt í einu langar í smá skemmtun á rigningardegi með því að heimsækja öll þessi söfn þá muntu því miður ekki hafa nógu marga sólarlausa daga til að klára það.

3. Dýragarðurinn í Berlín heldur flest dýr í heiminum. Nú eru um 1.500 tegundir dýra þar og eru 17.000 dýr í garðinum í heildina. Sökum þess að borginni var skipt í tvennt hér áður fyrr þá eru tveir dýragarðar starfræktir í Berlín. Þannig er það ennþá og eru þeir starfræktir hvor á sínum staðnum og upplagt að heimsækja þá báða þegar maður sækir Berlín heim.

Berlín á korti