Páskaganga um Amalfi og Sorrento á Ítalíu
Upplifðu yndislega fallegu Amalfi og Sorrento skagann á Ítalíu
Yndisleg níu daga Páskagönguferð á Ítalíu um nágrenni Sorrento og meðfram Amalfi ströndinni með glæsilegu útsýni yfir Napólíflóa. Í ferðinni verður gengið um helstu náttúruperlur þessa rómaða héraðs en einnig gefst frjáls tími til að njóta líðandi stundar og fallegu Ítalíu.
Dagskráin er skemmtileg, fjölbreytt og fararstjórinn reyndur á þessu sviði.
Flogið verður í beinu flugi með Icelandair til Rómar og þaðan er akstur til Amalfi Sorrento.
Það er skoðun margra að Sorrento-skaginn og Amalfi-hérað, skammt sunnan við Napólí á Ítalíu, sé einn fallegasti staður á jarðríki.
Amalfíströndin er er þekkt fyrir sitt dramatíska landslag, snarbratta kletta í sjó fram, Hér eru líka gullfalleg þorp við klettótta sjávarsíðuna og upp eftir hömrunum. Í þessari yndislegu ferð njótum við þess að feta í fótspor guðanna á göngu um Amalfíströndina og næsta nágrenni. Stórkostlegt útsýni er frá gönguleiðunum í þessari ferð yfir hinn dásamlega Napólíflóa sem er einn sá fallegasti á Ítalíu. Það býðst að fara í dagsferð til Pompei þar sem finna má eina af frægustu fornminjum veraldar sem voru huldar sýnum í yfir 1500 ár. Við göngum stíg Guðanna milli Bomerano og Nocella og komum við í rómantíska bænum Positano. Við siglum að sjálfsögðu til yndislegu eyjarinnar Caprí þar sem við göngum að fallegasta hluta hennar með útsýni yfir Faraglioni drangana. . Við kynnumst einnig ítalskri matargerðarlist þar sem við fáum heimamenn til að kenna okkur að matreiða hina einu sönnu ítölsku pizzu sem upprunnin er frá svæðinu. Í þessari dásamlegu gönguferð njótum við lífsins til hins ýtrasta.
Fararstjórinn
Ragnhildur Aðalsteinsdóttir er náttúruunnandi og útivist hennar hennar líf og yndi, ekki síst utanvegahlaup og fjallgöngur. Henni finnst gaman að kynnast nýjum stöðum, fjölbreyttri menningu og þeim mannauði heimurinn allur býr yfir. Hún útskrifaðist sem leiðsögumaður úr Leiðsöguskólanum í Kópavogi vorið 2021 og er að auki blaðamaður og ljósmyndari. Hún leiðsegir erlendu ferðafólki í styttri og lengri ferðum um Ísland og hefur verið fararstjóri í hreyfiferðum á Ítalíu og Spáni.
Við hefjum ferðalagið með beinu flugi frá Keflavík til Rómar (FCO flugvallar) kl. 07:50 og lendum í Róm kl. 14:25 um miðjan dag. Eftir það er akstur til hótelsins Hotel Dei Congressi í Castellammare Di Stabia. Fararstjórafundur á hótelinu þar sem nánar er farið yfir dagskrá ferðarinnar.
Þessi dagur verður á léttari nótunum. Rútan leggur af stað frá hótelinu um kl. 08:30 og við byrjum gönguna í hinum skemmtilega bæ Sant’Agata sem stendur efst uppi á Sorrento-skaganum. Þaðan er útsýni yfir bæði Napólíflóa og Salerno-flóa. Við heimsækjum líka pizzusnillinginn Antonio sem kennir okkur að búa til ekta ítalska sælkerapizzu, sem við fáum að sjálfsögðu að borða. Þá liggur gönguleiðin niður í miðbæ Sorrento þar sem við spókum okkur um áður en rútan ekur okkur til baka á hótelið.
Ganga: 4 klst.
Hækkun: 100 m / lækkun: 500 m
Vegalengd: 12 km
Erfiðleikastig: Miðlungs
Við verðum sótt á hótelið kl. 08:30. Þennan dag verður haldið í skoðunarferð um hina víðfrægu Amalfi-strönd. Hér nær fegurðin líklega hámarki og ekki að ósekju að UNESCO haldi verndarhendi yfir þessu stórbrotna strandhéraði. Gangan hefst í gimsteini héraðsins bænum Amalfi, þar sem þrætt verður upp fjölmargar brattar tröppur sem heimafólk þurfti að ganga daglega við störf sín á árum áður. Göngunni lýkur í hinum fallega bæ Ravello en þaðan er glæsilegt útsýni meðal annars frá Terrace of Infinity í Villa Cimbrone-garðinum. Á heimleiðinni fáum við að smakka sítrónulíkjörinn Limoncello sem er einn af einkennisdrykkjum Suður-Ítalíu.
Ganga: 4 klst.
Hækkun: 440 m / lækkun: 100 m
Vegalengd: 7 km
Erfiðleikastig: Miðlungs-erfitt
Við verðum sótt á hótelið kl. 08:30. Eldfjallið Vesúvíus er mógúll þessa hluta Suður-Ítalíu og gnæfir yfir Sorrento-skagann og Napólíborg. Skemmst er að minnast ægilegs sprengigoss árið 79 e.Kr. þegar eldskriður eyddu rómversku borgunum Pompeii og Herculaneum. Vesúvíus er í dag þjóðgarður með undurfögrum gönguleiðum. Við munum fara á toppinn, ganga með fram gígopinu og hjá gufuhverum sem sýna að fjallið er ekki dautt úr öllum æðum. Frá toppi fjallsins gefst enn eitt tækifæri til að njóta frábærs útsýnis. Í dagslok verður komið við hjá vínbónda við rætur fjallsins og bragðað á framleiðslunni.
Ganga: 3 klst.
Hækkun: 350 m / lækkun: 400 m
Vegalengd: 6 km
Erfiðleikastig: Miðlungs
Deginum eyðum við á hinni sólríku og seiðandi eyju Capri. Eftir stutta siglingu frá Sorrento verður farið í land á eyjunni og gengið um fallegasta hluta hennar, suðaustur svæðið. Hér úir allt og grúir af hellum, klettum og dröngum og tilkomumikil sýn er yfir klettahólmann Faraglioni. Eftir gönguna verður gengið um þröngar og krókóttar götur uns við fáum tækifæri til að njóta hins ljúfa lífs í hjarta Capri, á torgi hinna fínu og ríku, Piazzetta.
Ganga: 3 klst.
Hæðarmunur: 250 m
Vegalengd: 9 km
Erfiðleikastig: Auðveld
Frjáls dagur - njótið vel dagsins. Meðal annars er hægt er að taka lest annað hvort til Sorrento í suðvestri eða til Napólí í norðvestri.
Við leggjum af stað frá hótelinu kl. 08:30, höldum til Pompeii og skoðum fornar rómverskar rústir (aðgangseyrir innifalinn). Hér sjáum við hvernig undrin í Rómaveldi til forna lifðu af vegna eldfjallsins sem bæði þurrkaði út og varðveitti bæinn á undraverðan hátt. Við fáum tækifæri til að ganga um fornar götur þar sem vagnar fóru um áður og dást að fegurð freskuskreyttra húsa.
Síðdegis njótum við leiðsagnar um helstu ferðamannastaðina í hinni líflegu borg Napólí, sem liggur við rætur Vesúvíusfjalls. Við sjáum Piazza del Plebiscito með fallegu konungshöllinni og San Francesco di Paola kirkjunni, Galleria Umberto, hinn glæsilega Maschio Angioino-kastala og Santa Brigida-kirkjuna (aðeins að utan).
Ganga: 2 klst. + 1 klst.
Vegalengd: 2 km + 1 km
Hækkun/lækkun: nánast engin
Erfiðleikastig: Auðvelt
Rútan okkar heldur af stað frá hótelinu kl. 08:30. Fyrir göngufólk er dagleið dagsins sem draumi líkust; ganga eftir Stíg guðanna (Sentiero deli Dei). Við göngum frá austri til vesturs sem er fremur niður á við og hefst gangan í smábænum Bomerano. Fyrsti hluti göngunnar er að ströndinni en meginhluti leiðarinnar liggur með fram klettóttri strandlengjunni sem gnæfir hátt yfir haffletinum með ótrúlegu útsýni. Á göngunni gerum við stopp og fáum okkur snæðing á einum besta útsýnisstað leiðarinnar. Þessi frægi stígur sækir nafn sitt í goðsögn sem segir að hinn gríski konungur Íþöku, Ódysseifur, hafi hér flúið undan Sírenunum (söngmeyjum í fuglslíki sem seiða menn til bana með söng) sem höfðust við á smá-eyjunni Li Galli í hafinu sunnan við Sorrento-skagann. Formlega lýkur göngunni í bænum Nocelle en við göngum þó áfram til bæjarins Positano þar sem við náum að slappa af og njóta þess að vera í einum fallegasta bæ Ítalíu um stund.
Ganga: 5 klst.
Hækkun: 250 m / lækkun: 850 m
Vegalengd: 9-10 km
Erfiðleikastig: Miðlungs-erfitt
Akstur á flugvöll frá hótelinu til Rómar. Nánari upplýsingar um tíma hvenær rútar leggur af stað veitir fararstjóri.
Flogið er frá Róm Kl. 15:25 og við lendum í Keflavík kl. 18.15.
Hótelið Dei Congressi in Castellammare Di Stabia
Glæsilegt fjögurra stjörnu hótel. Hotel dei Congressi er á fallegum stað ef þú vilt uppgötva alla yndislegu staðina í nágrenninu eins og: Napólíflóa, Sorrentoskagann og Amalfi ströndina.