Aventura notar fótspor og aðra mælingatækni til að bæta upplifun þína á vefsíðu okkar, tryggja þér sem besta þjónustu og upplifun. Með því að halda áfram samþykkir þú notkun okkar á fótsporum.

PRAG

Prag er ein af stærstu borgum Mið-Evrópu og aldagömul höfuðborg Bæheims. Brýr, dómkirkjan, gylltir turnar og kirkjuhvolf hafa speglast í ánni Vltava í árþúsund. Borgin slapp nánast alveg við skemmdir í síðari heimsstyrjöldinni. Þetta er miðaldaborg með steinlögðum götum og görðum, óteljandi kirkjuturnum og bekkjum. Samt sem áður er Prag líka nútímaleg og lifandi borg, full af tónlist og menningu í allri sinni mynd og að sjálfsögðu stórkostlegum veitingastöðum. Margir telja Prag vera fallegustu borg Evrópu. Það er auðvelt að falla fyrir Prag og þú munt vilja koma aftur og aftur.

Allra veðra er von í Prag en það stendur upp úr að koma þangað í vor-/sumarfrí og svo vetrarfrí. Að vori, sumri og í haustbyrjun er tilvalið að ganga um höfuðborgina og ferðast til nærliggjandi borga. Allir garðar eru opnir sem og söfn og þá eru nokkurs konar bjórverandir þar sem tilvalið er að setjast aðeins niður og fá sér drykk að ógleymdum öllum hátíðunum í borginni. Haustin í Prag eru einstaklega falleg þegar tréin verða gul. Á þessum tíma byrja einnig útsölurnar. Veturnir eru mildir en vindasamir. Það er dásamlegt að koma á jólamarkaðina og upplifa Prag í snjó.

Allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi í þessari borg: sögulegar minjar, stórkostlegar leiksýningar, skoðunarferðir á söfn, dásamlegan mat heimamanna að ógleymdum tékkneska bjórnum.

Hin einstaka Prag


Ef þú tilheyrir hópi ferðamanna sem vilja fara í búðir, á veitingastaði eða slaka á á heilsulindum hótela eftir að hafa gengið um borgina og skoðað byggingalistina þá er Prag borgin fyrir þig. Þú verður nánast agndofa við hvert fótmál vegna ótrúlegrar fegurðar allra kirkjuturnanna. Sögulega miðborgin er vinsælasti staður ferðamanna í borginni. Þótt hún sé órafjarri öllum öðrum gömlum borgum Evrópu svífur andi miðalda yfir vötnum. Ferðamenn falla fyrir hinni sögufrægu Karlsbrú. Þá er ólíklegt annað en að hinn óviðjafnanlegi Pragkastali fangi athygli þína. Hann er talinn vera stærsti kastali í heimi.

Besta leiðin til að fara út fyrir ferðamannasvæði borgarinnar er að leigja sér hjól (venjulegt eða rafmagns). Það eru þó nokkrar hjólaleiðir í Prag sem liggja í gegnum svæði þar sem heimamenn njóta þess að slaka á. Það er t.d. tilvalið að fara í Rieger-garðinn þar sem er dásamlegt útsýni en þangað fara heimamenn í lautarferðir. Við Naplavka–árbakkann við Vltava eru barir og þar eru haldnir tónleikar. Þá er tilvalið að fara á bændamarkaði til að kynnast andrúmslofti borgarinnar. Á markaðnum sem er haldinn á laugardögum geturðu keypt ferskt grænmeti og ávexti, brauð, fisk og ost svo fátt eitt sé nefnt.

Ef þú ert að skipuleggja fjölskyldufrí í Prag þá ættirðu endilega að fara í dýragarð borgarinnar en hann er meðal þeirra stærstu í Evrópu á yfir 60 hektara svæði. Í dýragarðinum hefur verið sköpuð einstök eftirmynd frumskógar. Það þarf að verja heilum degi í dýragarðinum svo stór er hann. Dýr frá öllum heimshornum eru í honum; þar á meðal mörg mjög sjaldgæf dýr.


Næturlífið


Eins og í flestum evrópskum borgum eru margir barir og klúbbar í Prag þar sem hægt er að vera í taumlausri gleði fram á morgun. Eftir sólsetur breytist höfuðborg Tékklands nánast fyrir framan augun á þér.

Næturlífið í Prag er mjög fjölbreytt. Allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Þú getur dansað fram á morgun í einhverjum af klúbbum borgarinnar, drukkið hinn frábæra tékkneska bjór og notið lifandi tónlistar af öllu tagi. Þrátt fyrir að veitingastöðum og pöbbum sé lokað á miðnætti þá eru klúbbar í Prag opnir til dögunar eða jafnvel allan sólarhringinn! Margir næturklúbbar eru við Wenceslas-torgið þar sem alltaf er fjöldinn allur af ferðamönnum. Aðgangseyrir er mjög misjafn eftir stöðum sem og verð á drykkjum. Það er þó í engum vafa að verðið á bjór í Prag er eitt það lægsta í heimi!

Það er mjög vinsælt meðal fullorðinna í Prag að hittast á kvöldin á krám. Notalegar krár sem framleiða sinn eigin bjór eru við hvert fótmál. Nánast hálf borgin mætir þangað á kvöldin til að eiga notalega kvöldstund og spjalla.


Verslun


Það er mjög ánægjulegt að versla í Prag. Verðið er lægra en meðalverð í Evrópu. Framboð merkjavöru er nánast eins mikið og í heimsþekktu tískuborgum Evrópu – Mílanó og París. Það er skynsamlegt að kaupa föt og skó í Prag frá þekktum merkjum svo ekki sé nú minnst að handgerðar vörur frá tékkneskum hönnuðum, snyrtivörur, hið fræga tékkneska granatepli, alls kyns bjór, handgerðar vöfflur og sætindi og að minnsta kosti eina eftirlíkingu af litlu moldvörpunni úr teiknimynd Zdeněks Milers.

Flestar verslanir í Prag eru opnar frá kl. 9:00 til 18:00. Stórmörkuðum og verslunarmiðstöðvum er lokað síðar – kl. 21:00-22:00. Matvöruverslanir eru opnar á laugardögum til kl. 12:00. Á sunnudögum eru flest allar búðir lokaðar nema einstaka litlar matvörubúðir.

Það má segja að það séu tvö verslunarsvæði í Prag. Þau miðast svolítið við áhugasvið, fjárhag og tíma. Á Parizska Street eru verslanir frægra hönnuða og þekkt vörumerki.

Eins og annars staðar í Evrópu eru tvö útsölutímabil í Prag; að sumri og vetri. Í Tékklandi eru tvö útsölutímabil til viðbótar, í apríl og október. Vorútsalan byrjar í apríl og varir fram í miðjan maí, næsta afsláttartímabil er í júlí til ágúst. Sumarvörurnar eru seldar á útsölu í október og loks hefst langstærsta útsalan rétt fyrir jól. Afslátturinn fer alveg upp í 70-80%.




Ys og þys í Prag


Milljónir ferðamanna sækja Prag heim á ári hverju til að ganga um garðana, yfir brýrnar, heimsækja söfnin, horfa yfir borgina úr háum turnum og útsýnispöllum, skoða þekkt kennileiti, fá sér glas af tékkneskum bjór og kynnast hinni einstöku stemmningu í Pragkastala. Þetta er fornt virki sem nær yfir 45 hektara svæði með tilkomumiklum turnum, görðum hallargörðum og sögulegum byggingum sem hýsa söfn. Áhugaverðir staðir: Vítusarkirkjan er dómkirkja og stærsta kirkja landsins og í henni voru konungar Bæheims krýndir. Zlata–gatan er þekkt fyrir litlu húsin og þar er talið að gullgerðarmenn miðalda hafi búið.

Farðu í göngutúr um þetta svæði. Það er í þessum hluta borgarinnar sem þú upplifir hið einstaka andrúmsloft í Prag með stórkostlegri byggingarlist miðalda.

Gakktu eftir Karlsbrúnni og dáðstu að gamla bænum. Þetta er einn allra fallegasti og rómantískasti staðurinn í Prag. Þú getur óskað þér er þú stendur á brúnni og samkvæmt þjóðsögunni rætist óskin. Fallegasta og tilkomumesta útsýnið í borginni er frá Karlsbrúnni í ljósaskiptunum; þegar það er farið að rökkva og hundruð ljósa lýsa upp borgina. Á kvöldin er tilvalið að fara og fá sér að borða á hefðbundnum tékkneskum veitingastað (þeir eru fjölmargir í gamla bænum). Það eru tveir réttir sem allir ferðamenn í Prag þurfa að smakka: Trdelník (nokkurs konar kramarhús) og Pečené vepřové koleno (tékkneskur bakaður svínaskanki). Þá máttu alls ekki láta fram hjá þér fara að smakka hinn fræga tékkneska bjór. Allir ferðamenn vita að hvergi annars staðar fá þeir jafn bragðgóðan bjór. Margir veitingastaðirnir brugga sinn eigin bjór og bera fram þennan freyðandi drykk samkvæmt öllum kúnstarinnar reglum.

Svona annasamur dagur verður lengi í minnum hafður!


Staðreyndir um Prag


1. Prag er borg ótal turna. Fólk verður að sjá þá með eigin augum. Það eru taldir vera um þúsund turnar í borginni, þar með taldir vatnsturnar og turnar á íbúðarhúsum. Hver og einn turn á sína heillandi sögu sem hrífur bæði börn og fullorðna.

2. Prag skarar fram úr í heimsmetabók Guinness. Kastalinn í Prag hefur verið útnefndur stærsta kastalabygging í heimi. Þessi stórkostlega bygging er 570 metra löng og 130 metra breið. Það gæti tekið 40-60 mínútur að ganga í kringum hana!

3. Engir gervihnattadiskar eru á þökum gömlu húsanna í Prag – það er stranglega bannað. Það skemmir yfirbragð gamla bæjarins. Það sama gildir um plastglugga. Svo njóttu þessarar dásamlegu borgar í allri sinni dýrð!

Prag á korti