Aventura notar fótspor og aðra mælingatækni til að bæta upplifun þína á vefsíðu okkar, tryggja þér sem besta þjónustu og upplifun. Með því að halda áfram samþykkir þú notkun okkar á fótsporum.

Hin áður óþekkta Ítalía


HIN ÁÐUR ÓÞEKKTA  Í T A L Í A

ÞANN 21. - 28. MAÍ

SÆLKERAFERÐ Í SVEITIR MIÐ-ÍTALÍU


 
 


Í samstarfi við Þóru Fjeldsted, sagnfræðing, heimildarmyndagerðarkonu, áleggssmökkunartækni, fyrsta stigs vínsmakkara og truffluveiðikonu kynnum við einstaka ferð til Ítalíu á svæði sem eru nánast óþekkt meðal Íslendinga. Þóra hefur sett saman heillandi og skemmtilega dagskrá þar sem farþegar fá að kynnast hefðum og venjum í matar- og víngerð á svæðunum. Ostagerð og ostasmökkun, áleggssmökkun, vínsmökkun og fræðsla um kryddjurtir Miðjarðarhafsins er meðal þess sem verður gert auk þess að njóta í litlum og fallegum þorpum, í sveitum Mið-Ítalíu.

...

 

Þóra Fjeldsted
Fararstjóri

Þóra hefur notið þeirrar gæfu að taka þátt í aldagömlum hefðum, andvarpa á opinberum skrifstofum, taka í höndina á páfanum og kynnast mörgum mögnðum leyndardómum Ítalíu í þau fimmtán ár sem hún hefur búið þar af og á. Hún hefur eytt löngum stundum bæði fyrir norðan og sunnan en settist fyrir fimm árum að í þorpi í Ciociaria, svæðinu suðaustur af Róm, þar sem hægt er að skilja lyklana eftir í skránni og ekki er óalgengt að vakna við skvaldur nágrannana úti á götu.
Á ferðum sínum hefur hún kynnst ógrynni af áhugaverðu fólki, undurfallegum stöðum og ótrúlegu lostæti og það er henni sönn ánægja að deila allri þeirri fegurð og gæðum með þeim sem vilja upplifa töfra Ítalíu.

 

Ferðatilhögun21. maí
Keflavík - Róm28. maí
Róm - Keflavík7 dagarFyrir 2 fullorðna • Innifalið:
 • Flug með 23 kg tösku
 • Gisting í 4 nætur á Monastero Di Sant'Erasmo
 • Gisting í 3 nætur á Palazzo del Senatore í Atina
 • Íslensk fararstjórn
 • Akstur til og frá flugvelli og í ferðir
 • Dagskrá sem er tilgreind hér fyrir neðan
  

 • Ekki innifalið:
 • Ferðamannaskattur
 • Kvöldverðir 5 kvöld
 • Hádegisverðir 3 daga og drykkir með sameiginlegum máltíðum.
 • Annað sem ekki er tekið fram í ferðalýsingu og ekki talið upp hér að ofan í upptalningu á hvað sé innifalið. 
  
 • Annað:
 • Staðfestingargjald er 70.000 kr á mann og er óendurkræft. 
 • Lágmarksþátttaka er 20 manns og áskilur ferðaskrifstofan sér rétt til að fella ferð niður náist ekki næg þátttaka.
  
 


Fyrri hluti ferðarinnar verður í Veroli yndislegu sveitaþorpi þar sem um 10.000 manns búa.

Veroli er bær sem hefur yfir sér alvarlegt yfirbragð við fyrstu sýn – sem kemur kannski ekki á óvart því svo öldum skipti var bærinn mikilvægur hluti af Páfagarði. Þessi miðaldabær, sem liggur niður eftir fjallshlíð umkringdur ólífurækt og vínökrum, státar sig í dag af merkri sögu, mörgum minnismerkjum, torgum, börum og góðum veitingastöðum. Í þessum fallega bæ er að finna merki um dýrlinga, aðalsfólk og bændur hvert sem litið er.
Meðal mikilvægustu fornleifarnar eru “fasti Verulani”, rómverskt dagatal frá 1. öld eftir Krist, og kirkju Santa Maria Salomé, þar sem er að finna heilagan stiga (Scala Santa) sem er kaþólikkum sérlega kær og einn af aðeins þremur í heiminum. Þetta er Mið-Ítalía í hnotskurn.


Seinni hluti ferðarinnar verður í Atina sem er miðstöð Cabernet víngerðar.
Hér teygir sagan sig svo langt aftur að enginn veit nákvæmlega hvenær hún hófst - leyndardómsfullir útveggir eru í það allra minnsta frá þúsund árum fyrir Krist. En ljóst er að Atina var blómlegur bær á tímum Rómarveldis, miðstöð valds, verslunar Normanna á miðöldum og mikilvægur inngangur í Comino dalinn á tímum Konungdæmis Napóli. 
Eins og stór hluti svæðisins sunnan af Róm gleymdist Atina í sameinaðri Ítalíu á tuttugustu öld og horfði uppá mikinn brottflutning fólks en á síðustu áratugum hafa íbúarnir unnið stíft að því að koma bænum aftur kortið og sanna gildi hans og alls Comino dalsins í kring. Í dag telur Atina um 4000 íbúa og er miðstöð Cabernet víngerðar.
Í huggulegum miðbænum ægir saman þröngum götum, merkum fornminjum og fallegum 18. aldar aðalshúsum.

 
 •  21. MAÍ - SUNNUDAGUR 
 • Frá Róm er ekið með og rútu til Veroli. Áætluð koma og innritun á Albergo Diffuso Sant Erasmo sirka kl. 17:30. Klukkan 19.30 er kvöldmatur fyrir allan hópinn í miðbænum á veitingastaðnum Sora Loci þar sem ungi kokkurinn Carlo Fiorini sérhæfir sig i týpiskum réttum svæðisins með stæl og gleði.
 • 22. MAÍ - MÁNUDAGUR
 • Kastljósinu er beint að matar- og lækningajurtum. Við tökum rútuna til Collepardo, fjallaþorps sem er staðsett er í hálftíma fjarlægð frá Veroli og frægt fyrir aldalanga hefð í þekkingu á jurtum og eiginleikum þeirra. Við byrjum með heimsókn í Certosa di Trisulti klaustur þar sem öldum saman bjó samfélag munka sem sérhæfði sig í jurtum en varð nýlega frægt sem höfuðstöðvar Steve Bannons í Evrópu. Þaðan er förinni haldið í grasagarðinn Sylvatico þar sem við lærum um helstu kryddjurtir miðjarðarhafsis - jurtir sem við munum svo upplifa í mat út vikuna og njótum svo létts hádegismatar. Eftir viðkomu í skemmtilegum kalksteinshellum heimsækjum við svo Sarandrea, frægasta bruggara mið-Ítaliu, sem hefur erft kunnáttu munkanna og nýtir hana meðal annars til að búa til marga af best metnu snöpsum Ítalíu. Við fáum að smakka breitt úrval af þessum hluta ítalskrar matarmenningar áður en við höldum tilbaka til Veroli þar sem kvöldið er frjálst.
 • 23. MAÍ - ÞRIÐJUDAGUR
 • Dagurinn er helgaður hinu margrómaða áleggi Ítalíu. Við byrjum daginn á því að kynnast Veroli betur með skoðunarferð um bæinn en leggjumst svo í áleggsmökkun upp úr hádegi. Þar kynnumst við heimi hinnar aldagömlu hefðar að vinna álegg úr kjöti. Hér fáum við innsýn í mismunandi bragðtegundir og lærum tækni til að dæma gæði vörunnar. Hráskinka, beikon, og aðrar tengundir af ljúffengu áleggi: Við smökkum það allt!
 • 24. MAÍ - MIÐVIKUDAGUR
 • Skemmtiferð að hafinu til að njóta strandlengjunnar, fá innsýn í fiskmenningu miðjarðarhafsins og upplifa dásamlegu strandborgirnar Sperlonga og Gaeta. Byrjum í Sperlonga, þar sem hægt er að njóta þessa sérstaka þorps, anda að sér sjávarloftinu, ganga niður á strönd og jafnvel dýfa tá í saltan sjó. Höldum svo yfir til Gaeta í síðbúinn hádegismat á frábærum fiskiveitingastað (hver pantar eftir smekk svo ekki innifalið). Bátarnir koma í land með fenginn um eftirmiðdaginn svo tilvalið er að koma við á fiskmarkaðnum áður en lagt er í könnun á þessari stórkostlegu en gleymdu sjávarborg Ítalíu.
 • 25. MAÍ - FIMMTUDAGUR
 • Færum okkur um stað frá Veroli og til hins heillandi dals Val di Comino. Nýtum ferðina til kíkja á alvöru ítalskan götumarkað í borginni Sora og höldum svo á hótelið Il Palazzo del Senatore í bænum Atina skammt þar frá. Um eftirmiðdaginn förum við í Casa Lawrence, þar sem einn frægasti hráostagerðarmaður Lazio, Loreto Pacitti, kennir ricotta ostagerð og hér stoppum við í ostasmökkun og kvöldmat. Í Casa Lawrence er alltaf glatt á hjalla og Loreto framleiðir 6-7 tegundir af hrá/náttúrostum sem eru hver öðrum betri, margir hverjir slowfood og DOC viðurkenndir.
 • 26. MAÍ - FÖSTUDAGUR
 • Það má ekki gleyma drykkjunum, svo dagurinn er tileinkaður víni. Hefjum daginn á skoðunarferð um Atina og heyrum svo um vínrækt í héraðinu í sölum hótelsins okkar sem var mikilvæg miðstöð vínræktar á 19. öld. Um eftirmiðdaginn förum við í vínsmökkun hjá víngerðinni Cominium í Alvito þar sem vínbændurnir leiða göngu um vínræktina, bjóða í kjallarann og enda svo með vínsmökkun á þremur af þeirra bestu vínum.
   
 • 27. MAÍ - LAUGARDAGUR
 • Tími til að draga saman þræðina og nýta alla þekkinguna á kjöti, ostum og jurtum til að elda alvöru ítalska máltíð. Eftir rólegan morgun í Atina förum við til I Ciacca í Picinisco þar sem við notum sérstaka aðstöðu þeirra til að elda stóra og ljúffenga máltíð. Með matnum er boðið uppá tvö glös af “maturano” víninu I Ciacca sem hefur unnið margvísleg verðlaun fyrir gæði og kvöldið endar með gleði, söng, og hefðbundnum dönsum.
 • 28. MAÍ - SUNNUDAGUR
 • Heimferð
  Flogið með Icelandair frá Róm til Keflavíkur - Áætlaður brottfarartími 16:00 og áætlaður lendingartími í Keflavík er 18:45
 

HÓTELIN Í FERÐINNI

 
 

MONASTERO DI SANT'ERASMO ✰✰✰

Huggulegt ekta ítalskt sveitahótel í gömlu klaustri í þorpinu Veroli. Þarna er heillandi samspil fortíðar og nútíðar. Hvert smáatriði kallar á sögulega tíma þó nútímaþægindi séu til staðar. Fallegur garður með verönd með húsgögnum er við hótelið þar sem yndislegt er að tylla sér og njóta útsýnis. Þarna finnur þú kyrrð og ró í yndislegu sveitaþorpi.

PALAZZO DEL SENATORE ✰✰✰

Palazzo del Senatore er til húsa í sögulegri byggingu í hjarta Atina. Samblanda af nútímaþægindum og heillandi gamaldags andrúmslofti. Þarna upplifir þú svo sannarlega Ítalíu sem þú hefur ekki kynnst áður, falleg náttúra og rólegt andrúmsloft.


   
  
MYNDIR FRÁ SVÆÐINU
 

VALLE DI COMINO

 
 

CERTOSA DI TRISULTI


 
 
 

ATINA


 
 

GAETA

 
 

MATARBOTEGA Í VEROLI


 
 
 

MATARBOTEGA Í VEROLI

 
 

CERTOSA DI TRISULTI KLAUSTUR

 
 

KIRKJA Í VEROLI


 
 
 

OSTAKENNSLA Í CASA LAWRENCE